26 júní 2025

Kærleiksherferð fyrir Bryndísarhlíð
Riddarar kærleikans leiða söfnun fyrir Bryndísarhlíð og vitundarvakningu sem byggir á kærleika, samkennd og samtali.
Þann 11. júní hófst kærleiksherferð Riddara kærleikans þar sem safnað er fyrir Bryndísarhlíð – húsnæði sem myndi hýsa geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn sem eru þolendur ofbeldis. Allt söfnunarfé rennur óskert til Minningarsjóðs Bryndísar Klöru en sjóðurinn var stofnaður í kjölfar fráfalls Bryndísar Klöru Birgisdóttur, sem lést eftir hnífaárás á Menningarnótt í Reykjavík á síðastliðnu ári.
Forseti Íslands, Halla Tómasdóttir hafði frumkvæði að halda svokallaðan kærleikshring á Bessastöðum í framhaldi af ákalli foreldra Bryndísar Klöru með það að markmiði að efla kærleik í samfélaginu og hlúa betur að börnum sem búa við ofbeldi. Riddarar kærleikans voru settir á laggirnar í kjölfarið en um er ræða hreyfingu fólks sem hefur það að markmiði að virkja kærleikann í samfélaginu, minnka ofbeldi og bæta líðan með samtali og aðgerðum, þvert á kynslóðir og hópa. Forseti Íslands er verndari minningarsjóðsins en markmið hans er að styðja við verkefni sem miða að því að vernda börn og ungmenni gegn ofbeldi og efla íslenskt samfélag þar sem samkennd, samvinna og öryggi eru í forgrunni. Riddarar kærleikans leiða kærleiksherferðina og öll geta tekið þátt, allt söfnunarfé rennur óskert til Minningarsjóðs Bryndísar Klöru tileinkað Bryndísarhlíð.
Kærleiksherferðin hófst þriðjudaginn 11. júní með viðburði í Iðnó við tjörnina í Reykjavík. Þar sem forseti Íslands, Halla Tómasdóttir hélt tölu auk þess sem Alma Möller, heilbrigðisráherra kynnti áform heilbrigðisráðuneytisins í því að styðja við stofnun Bryndísarhlíðar sem er mikilvægt skref til þess að efla geðheilbrigðisþjónustu við börn sem búa við ofbeldi. Fyrirhugað er að þjónusta Bryndísarhlíðar verði þverfagleg og sinnt af heilbrigðisstarfsfólki sem hefur sérfræðiþekkingu á málefnum barna.
Á viðburðinum í Iðnó kom GDRN einnig koma fram og flutti lagið, Riddarar kærleikans. Ennfremur var sérstakur Kærleiks Kristall kynntur en allur ágóði af sölu hans rennur í Minningarsjóð Bryndísar Klöru til uppbyggingar Bryndísarhlíðar. Kærleiks Kristall verður til sölu um land allt í verslunum Krónunnar, Bónus, Hagkaup og Nettó og mun allur ágóði renna í söfnunina fyrir Bryndísarhlíð.
Birgir Karl Óskarsson og Iðunn Eiríksdóttir, foreldrar Bryndísar Klöru;
„Við foreldrar Bryndísar Klöru vonum að Bryndísarhlíð verði öruggur staður fyrir börn og ungmenni sem þurfa stuðning vegna ofbeldis. Minning Bryndísar Klöru lifir í þeirri von að ekkert barn og engin fjölskylda þurfi að upplifa slíkan harmleik.“
Til stuðnings átakinu munu tvö ungmenni, kærleiksriddarar og fyrrum skólafélagar Bryndísar Klöru úr Verslunarskólanum, Kári Einarsson og Embla Bachman halda í hringferð um landið með boðskap um kærleika, samkennd, tengsl og mikilvægi þess að tala saman. Markmiðið er að skapa stóran kærleikshring hringinn í kringum Ísland. Bílaumboðið Askja styður kærleikshringinn um landið með því að því að lána bíl til afnota.
Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um kærleiksherferðina á vefsíðunni www.riddararkaerleikans.is og á samfélagssíðum Riddara kærleikans en þar er einnig hægt að fylgjast með kærleikshringferðinni í sumar.
Nánari upplýsingar um Minningarsjóð Bryndísar Klöru er að finna á vefsíðunni www.mbk.is
Guðrún Inga Sívertsen formaður Minningarsjóðs Bryndísar Klöru veitir nánari upplýsingar um kærleiksherferðina í síma 6997808
Hægt er styðja við Bryndísarhlíð með Aur appinu, fjárframlögum beint inn á bankareikning Minningarsjóðsins (Banki: 515-14-171717- Kt: 430924-0600) og með því að hringja í neðangreind símanúmer:
• 907 1501 - 1000 krónur
• 907 1503 - 3000 krónur
• 907 1505 - 5000 krónur